2023-05-28

Vatnsleysustrandarrétt á Vatnsleysuströnd │ Iceland Photo Gallery

Documenting Iceland

by: Rafn Sig,-

Miðvikudaginn 19 september 1956 var Vatnsleysustrandarrétt vígð.

Réttin er í landi Hlöðuneshverfis og stendur austan við samkomuhúsið Kirkjuhvol. Smiði hennar hófst í Ágúst 1956. Þórður Kr. Jónasson,bóndi á Stóru-Vatnsleysu, gerði frumdrætti að fyrirkomulagi réttarinnar og sá um byggingu hennar. Réttin og allur útbúnaður, sem að henni lýtur, er frábærlega vandaður og Vatnsleysustrandarmönnum til sóma.
Við þetta tækifæri flutti Erlendur Magnússon bóndi ræðu og rakti í stórum dráttum byggingarsögu réttarinnar. Kostnaður við bygginguna var um 90 þúsund krónur. Helming kostnaðar greiddi Vatnsleysustrandarhreppur. Fjórða hluta greiddi sýslusjóður Kjósasýslu og fjórða hlutann greiddu landeigendur og fjáreigendur í hreppnum.

Eftir ræðu Erlendar bað hann því næst , elsta fjáreigandann í hreppnum, Gísla Eiríksson í Naustakoti, sem þá var kominn fast að áttræðu, að koma með eina kind inn í almenninginn og lýsti því yfir að Vatnsleysustrandarrétt væri tekin í notkun. Gísli var búinn að vera fjáreigandi í 60 ár og hafði hann allan sinn búskap búið í hreppnum.

Eftir að réttin hafði verið tekin í notkun, gengu viðstaddir að samkomuhúsinu Kirkjuhvoli, og þar voru bornar fram veitingar. Undir borðum flutti hreppstjóri Vatnsleysustrandarhrepps, Árni K. Hallgrímsson ræðu og talaði m.a. um fjáreign manna fyrr og nú.

Hann sagði að árið 1913 hafi fjáreignin verið mest en fækkað mjög árið eftir. Nú væru um tuttugu fjáreigendur í hreppnum og hugur væri í mönnum að stækka bústofninn.
Að samsætinu loknu var gengið til réttar og tekið að draga í dilka.

Réttin er byggð í hring, Ellefu dilkar eru út frá almenningnum og breiður gangur úr safngirðingunni í almenning. Réttin er steinsteypt, hvítmáluð með grænum köntum efst á veggnum og ofan á þeim.
Sérstaka athygli vöktu pallar þeir sem komið er fyrir utan við sjálfa reitina, Eins og komið er nú er flest fé flutt frá réttum á bílum.
Þessir pallar sem Strandamenn hafa komið fyrir við rétt sína eru til þess gerðir að þegar flytja skal féð, er það látið ganga eftir gangbretti upp á pallinn, sem er í bílhæð og þaðan yfir á bílpallinn. Með þessum nýja búnaði í Strandarétt vinnst þrennt: Auðveldar störfin, kemur í veg fyrir skemmdir á afurðunum og afstýrir meiðslum og illri meðferð á skepnum..
Þórður Kr. Jónasson á Stóru-Vatnsleysu átti hugmyndina að smíði pallana ásamt teikningum af sjálfri réttinni.
Réttarstjóri í Strandarétt var Sigurjón Sigurðsson bóndi í Traðarkoti.
Var það mál manna að vel hefði tekist til með uppfinningu og væntanlega á hún eftir að koma að notum í fleiri byggðalögum.
Heimild Tíminn, 212 tölublað. Fimmtudagur 20. Sept. 1956

You can buy this and other photos at my Icelandic Stock Photo Web: IcelandStockPhotos.com

– 0 –

Liked it?

Take a second to support me on Patreon

 

Viltu styrkja þessa síðu?

Vefsíðan Iceland Photo Gallery er unnin í sjálfboðavinnu. Ef þú hefur áhuga á að styrkja þetta framtak til áframhaldandi uppbyggingar er hægt að leggja inn á:

Reikningsnr.: 0101-26-013169
Kennitala: 310155-4469

Show Buttons
Hide Buttons